Hafnarhvoll
Ertu á leið í heimsókn?
Hér finnur þú gagnlegar upplýsingar um undirbúning heimsóknar og fróðleik um bygginguna

Hvar er best að leggja?
Yfirleitt má finna laus bílastæði Geirsgötumegin við húsið, fyrir framan Special Tours. Athugið að greiða þarf fyrir stæðin með Parka appinu.
Tryggvagötumegin og við Hafnarhúsið má auk þess oft finna stæði.
Mörg bílastæðahús eru í nágrenninu, meðal annars nýtt hús undir Hafnartorgi og í Mjóstræti við Vesturgötu.
Helstu staðsetningar má finna á kortinu hér að neðan.

Hvað er gott að hafa meðferðis?
Oft er gott að undirbúa heimsóknina, en þar sem viðfangsefnin eru ólík er hentugur undirbúningur það sömuleiðis.
Hér eru nokkur atriði til að hafa í huga:
-
Gott er að útbúa spurningalista svo ekkert gleymist
-
Sumu er hægt að fletta upp á staðnum, svo sem íslenskum lífeyrisréttindum, en annað er gott að hafa meðferðis
-
Dæmi um gögn sem gott er að taka með eru yfirlit yfir viðbótarlífeyrissparnað, erlend réttindi og skilmála lána
-
Það hjálpar að hafa velt fyrir sér eða rætt við maka um markmið.
-
Íbúðalán: Er ætlunin að gera sig skuldlaus, lágmarka greiðslubyrði, undirbúa kaup á dýrara húsnæði osfrv.
-
Sparnaður og fjárfestingar: Hver er áhersla okkar á ávöxtun og öryggi? Er öll fjárhæðin hugsuð til jafn langs tíma eða eru tímalengdirnar mislangar?
-
Lífeyrismál: Hvenær og hvernig viljum við geta hætt að vinna? Hversu dýrt verður daglegt líf á lífeyrisaldri?
-
Hvar er gengið inn?
Hafnarhvoll er að Tryggvagötu 11 í Reykjavík.
Gengið er inn í bygginguna Tryggvagötumegin. Yfir inngangnum eru stafirnir HAFNARHVOLL og gegnt inngangnum er aðalinngangur Black Pearl íbúðahótelsins.
Skrifstofan er á 4. hæð byggingarinnar.

Hafnarhvoll
Á horni Tryggvagötu og Geirsgötu í Reykavík stendur hinn reisulegi Hafnarhvoll. Húsið teiknaði Hörður Bjarnason, síðar húsameistari ríkisins og er húsið það fyrsta sem hann teiknaði að loknu námi í Dresden í Þýskalandi.
Meðal annarra verka Harðar má nefna Skálholts- og Kópavogskirkjur, Kennaraskólann og Austurbæjarbíó, Þá var hann formaður bygginganefndar Þjóðleikhússins, Þjóðabókhlöðunnar, Tollhússins (einnig í Tryggvagötu) og Ríkisútvarpsins.
Í viðtali við Morgunblaðið árið 1986 sagði Hörður um Hafnarhvol, sem reistur var árið 1943 „Þegar hús er byggt á gatnamótum eins og Hafnarhvoll, liggur beint við að nota bogaformið“. Þar er húsið sagt eitt það fyrsta hér á landi sem reist er í boga.
Fjölbreytt starfsemi hefur verið í húsinu, en lengst af sjávarútvegstengd skrifstofustarfsemi. Þar hefur auk þess verið fjármálaþjónusta, póstgeymsla, veitingarekstur og blaðaútgáfa, svo eitthvað sé nefnt.
Í dag liggur starfsemi jarðhæðarinnar í dvala, en þar var nýlega starfrækt veitingahúsið Anna Jóna. Margvísleg atvinnustarfsemi fer nú fram á efri hæðum hússins en á 4. hæð eru, auk Björns, lögmannsstofa Magnúsar B. Brynjólfssonar og KRST lögmenn.