top of page
Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Óskarsverðlaunin

Á mánudaginn bárust okkur þau gleðitíðindi að Gísli Darri Halldórsson hafi verið tilnefndur til Óskarsverðlaunanna sem afhent verða 26. apríl næstkomandi. Tilnefninguna hlaut hann fyrir stuttmynd sína um Já fólkið og getur með sigri fetað í fótspor Hildar Guðnadóttur sem tók Óskarsverðlaunastyttuna með sér heim af hátíðinni í fyrra.


Eflaust eru fáir verðlaunagripir þekktari en styttan af honum Óskari. Við tengjum hann við glys og glamúrlíf fræga fólksins í Hollywood, geðshræringu verðlaunahafa og sem vitnisburð um yfirburði hinna fremstu á hvíta tjaldinu. Þegar Hildur mundaði gripinn á sviðinu í fyrra var það staðfesting kvikmyndaakademíunnar á því að hún stóð öðrum tónskáldum framar það kvikmyndaárið. En það býr þó meira að baki.


Það var árið 1928, á hápunkti Art Deco tímabilsins, sem listrænn stjórnandi kvikmyndaversins Metro-Goldwyn-Meyer, Cedric Gibbons, lét móta styttu eftir teikningu sinni. Myndhöggvarinn George Stanley sló 15 slíkar sem ári síðar voru afhentar þeim sem bera þóttu af á sínu sviði í kvikmyndagerð við fyrstu verðlaunaafhendingu kvikmyndaakademíunnar í Los Angeles.


Sagan segir að það hafi verið árið 1934 sem starfsmaður akademíunnar, Margret Herrick, hafði orð á því að kappinn minnti á Óskar frænda hennar. Hvort sem einhver fótur er fyrir því hefur hann formlega verið kallaður því nafni frá 1939.


Verðlaunaflokkum hefur fjölgað með árunum og í dag eru um 50 Óskarar veittir ár hvert og í heildina eru á fjórða þúsund þeirra á arinhillum víða um heim, þar á meðal hjá Hildi okkar Guðnadóttur, sem enn er eini Íslendingurinn sem unnið hefur til þeirra verðlauna. Ég kannaði hvort einhver Óskar hafi fengið Óskar og sýnist það einungis hafa verið tónskáldið Oscar Hammerstein, sem vann tvo nafna sína árin 1941 og 1946.


En hversu verðmæt er styttan sjálf? Því er í raun ekki auðsvarað. Verðmæti hennar verður tæplega mælt í hráefnunum eingöngu en ef svo væri kæmi upphæðin ef til vill nokkuð á óvart. Þó svo hún glansi skínandi gulli er einungis um húð að ræða. Uppistaðan er brons, samsuða kopars og tins og kostnaður hverra og einnar í námunda við 60.000 íslenskar krónur, það er allt og sumt. Úr skíragulli væri hún ekki bara 9 kílógrömm (líkt og þokkalegasta ketilbjalla) heldur kostaði um 30 milljónir króna. Verðlaunahafar færu því heim með einn og hálfan milljarð króna ár hvert.


Eins og gefur að skilja hefur þýðing, tilefni og saga einstakra verðlauna þau áhrif að margir væru tilbúnir að greiða meira en 60.000 kr. fyrir gripinn. Leikstjórinn og kvikmyndagerðamaðurinn Steven Spielberg, sem unnið hefur þrjá sjálfur og verið tilnefndur 14 sinnum að auki, keypti þannig Óskar leikkonunnar Bette Davis frá árinu 1938 á yfir 100 milljónir króna upp úr aldamótum. Verðlaunin hlaut Davis fyrir leik sinn í myndinni Jezebel og var það í annað sinn sem hún fór með sigur af hólmi. 8 sinnum var hún tilnefnd í kjölfarið en aldrei kom þriðji Óskarinn.


Í dag er þó víst bannað að selja hann Óskar nema Akademíunni sé boðið að nýta forkaupsrétt sinn og henni nægir að bjóða einn bandarískan dollar. Hvert myndum við þá segja að sé raunverulegt verðmæti gripsins? Einn dollar? 60.000 krónur? 100 milljónir? Nei ætli það sé ekki fyrst og fremst mælt í útbelgdu stolti eigandans?


Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu

bottom of page