Langfæst okkar erum sérfræðingar í lífeyrismálum. Það er þó gömul saga og ný að svo virðist stundum sem lífeyriskerfið geri ráð fyrir að við séum sérfræðingar. Sífelldar breytingar eru vissulega flestar til góða og fjölga margar þeim valkostum sem fólk hefur við starfslok. Það getur þó reynst erfitt að nýta þennan aukna sveigjanleika nema með meiri þekkingu á kerfinu en eðlilegt er að krefjast af fólki sem hefur lífeyrismál ekki sem sérstakt áhugamál.
Þegar mikil verðmæti eru í húfi er þó nauðsynlegt að kynna sér málin vel, hversu flókin sem þau kunna að vera. Gott dæmi um slíkt eru þær breytingar sem gerðar voru á meðhöndlun séreignarsparnaðar nú um mánaðamótin. Breytingarnar hafa verið vel kynntar af lífeyrissjóðum, Tryggingastofnun og ríkinu en þó virðist enn vart við mikið óöryggi hjá mörgum vegna þeirra og að rangar upplýsingar séu í dreifingu. Lítum á það helsta sem breyttist um áramót, í eins einfaldri mynd og við treystum okkur til að setja fram:
Tilgreind séreign
Með nokkurri einföldun hefur oft verið sagt að við greiðum annars vegar í lífeyrissjóðinn okkar um hver mánaðamót og hins vegar í viðbótarlífeyrissparnað, ef við viljum. Í dag er staðan þó talsvert flóknari og getur verið æði misjöfn hjá fólki. Lítum á dæmi um það hvernig algengt er að greitt sé í dag:
Skylduiðgjald er það sem allir launþegar á Íslandi verða að greiða og fá þeir mótframlag frá vinnuveitanda sínum. Frjálst iðgjald er greiðsla í viðbótarlífeyrissparnað, gamla góða sparnaðinn sem frjálst er að greiða í 2-4% af eigin launum og fá amk. 2% mótframlag. Ekkert hefur breyst síðan í fyrra varðandi meðhöndlun viðbótarlífeyrissparnaðar.
Aftur að skylduiðgjaldinu. Eins og sjá má á myndinni að ofan er algengt að því sé nú skipt upp. Stærstur hluti fer í samtryggingarsjóð, sem er hefðbundni lífeyrissjóðurinn sem við þekkjum og skilar okkur síðar mánaðarlegum greiðslum ævilangt. Rauða súlan er tiltölulega nýleg tegund lífeyris sem heitir tilgreind séreign og hún er það sem málið snýst um. Í öðrum tilvikum getur fólk verið að safna annars konar séreign en tilgreindri með sambærilegum hætti sem nefnist til dæmis séreignarhluti lágmarksiðgjalds eða bundin séreign. Slík séreign er meðhöndluð með svipuðum hætti og tilgreind séreign. Ef þú átt slíka séreign skaltu endilega kynna þér hana hjá lífeyrissjóðnum þínum.
Munurinn á tilgreindri séreign og samtryggingarsjóði
Réttindi í samtryggingarsjóði tryggja greiðslur út ævina, óháð ævilengd. Sömuleiðis má finna örorkulífeyri í slíkum réttindum sem og barna- og makalífeyri ef við föllum frá. Séreign er hins vegar föst krónutala á okkar kennitölu og kemur engum öðrum við. Á meðan samtryggingarsjóðurinn greiðir okkur ævilangt er séreignin búin þegar við tökum út síðustu krónuna. Á móti rennur afgangur af séreigninni til erfingja okkar við andlát en greiðslur úr samtryggingarsjóði falla niður. Algengt er að við megum byrja að taka tilgreindu séreignina út nokkru fyrr en samtrygginguna, t.d. við 62 ára aldur. Sömuleiðis getum við haft áhrif á það hvernig séreign er geymd og ávöxtuð, en ekki varðandi samtrygginguna.
Munurinn á tilgreindri séreign og viðbótarlífeyrissparnaði
Það sem flækir þetta mál heilmikið er að í daglegu tali köllum við viðbótarlífeyrissparnað oft séreign. Enda er hann séreign. Og tilgreind séreign er það líka. Ruglingslegra getur það varla verið. Mikilvægt er þó að þekkja muninn á þessu tvennu vegna þess að Tryggingastofnun gerir það svo sannarlega og um það snúast þær breytingar sem tóku gildi nú um áramótin. Mundu að tilgreind séreign er ekki það sama og viðbótarlífeyrissparnaður.
Skerðingar
Frá 65 ára aldri getur fólk sótt um greiðslur frá Tryggingastofnun (TR) sem heita ellilífeyrir. Ekki batnar ruglingurinn því um er að ræða mjög ólíkar greiðslur en berast frá lífeyrissjóðum en samt er þetta allt saman kallað lífeyrir í daglegu tali. Þessar greiðslur TR eru tekjutengdar, sem þýðir að þær lækka eftir því sem aðrar tekjur okkar aukast. Ekki um krónu á móti krónu eins og stundum er fullyrt, en það munar samt um þessar skerðingar.
Greiðsla úr samtryggingarsjóði, launatekjur, vextir og fleiri tekjur skerða greiðslur TR en fram til síðustu áramóta hafði séreignarsparnaður engin áhrif og skerti ekki greiðslur TR. Þessu var breytt nú um áramótin og nú mun öll sú séreign sem tilheyrir skylduiðgjaldi skerða, en ekki viðbótarlífeyrissparnaður. Engar breytingar eru því á því hvernig stofnunin meðhöndlar viðbótarlífeyri, en aðrar tegundir séreignar, t.d. tilgreind séreign, munu nú skerða greiðslur TR.
Á þessu er þó sú undantekning að fólk sem sótt hafði um greiðslur frá TR fyrir síðustu áramót verður ekki fyrir skerðingum. Fyrir aðra þýðir þetta þó að sennilega mun henta flestum að taka út tilgreinda séreign (eða aðra séreign sem er hluti skylduiðgjalds) áður en sótt er um greiðslur frá TR.
Flóknara getur það varla verið en þannig er það nú samt og þetta verðum við að þekkja áður en við hefjum úttektir. Til að nálgast nauðsynlegar upplýsingar er gott að líta á vef lífeyrissjóðsins eða hafa beint samband við þá. Í þessu tilfelli eins og svo mörgum er gott tímakaup í að kynna sér lífeyrismál.
Greinin er birt með leyfi Íslandsbanka og birtist fyrst á vef bankans.