top of page

Svíar vilja auka notkun reiðufjár

Writer: Björn Berg GunnarssonBjörn Berg Gunnarsson

Á dögunum birti seðlabanki Svíþjóðar áhugaverða skýrslu um notkun reiðufjár og annarra greiðslumáta þar í landi. Þar kveður við nýjan tón frá bankanum, en sérstök áhersla er lögð á örugga greiðslumiðlun í tilfelli áfalls eða stríðs.


Lítil reiðufjárnotkun


Á Norðurlöndunum hefur notkun reiðufjár dregist saman undanfarin ár og hefur sú þróun verið hvað mest áberandi í Svíþjóð. Þar er til dæmis áætlað að um 30% lítilla fyrirtækja taki ekki við reiðufé af viðskiptavinum sínum. Þar hefur almenn notkun seðla og myntar í daglegum viðskiptum dregist hratt saman, rétt eins og hér á Íslandi þar sem um 2,1% reglulegra greiðslna eiga sér stað með reiðufé. Í skilgreiningu Seðlabanka Íslands er með reglulegri notkun átt við vikulega hið minnsta.



Minnkandi notkun reiðufjár vindur upp á sig. Þegar einstaklingar færa sig yfir í aðrar greiðsluleiðir eykst nýsköpun og framboð á þægilegum rafrænum greiðslum og þeim er í auknum mæli haldið að viðskiptavinum, meðal annars þegar ekki er lengur tekið við reiðufé. Þar að auki hafa reglur um notkun reiðufjár verið hertar til muna, sem hefur orðið til þess að bankahólfum hefur verið lokað og færa þarf rök fyrir innlögn reiðufjár umfram tilteknar fjárhæðir í bönkum. Slíkt getur dregið úr þægindum reiðufjár og aukið enn frekar notkun annarra leiða. Þannig hefur boltinn rúllað undanfarin ár og nú er svo komið að erfitt er að nálgast erlent reiðufé á Íslandi, svo sem frá Norðurlöndunum og talað er um samfélagslegt tap af notkun reiðufjár.



Er aukið aðgengi svarið?


Nú varpar sænski seðlabankinn kastljósinu að þeim óskostum sem því kanna að fylgja minnki reiðufjárnotkun enn frekar eða leggist jafnvel af. Vissulega sé enn mikilvægt að vinna gegn svarta hagkerfinu, fjármögnun hryðjuverka og peningaþvætti, en ekki megi vanmeta mikilvægi þess að mögulegt sé að greiða með reiðufé. En hvers vegna er það mikilvægt


Vegna þess að allir þurfa að geta greitt, alltaf. Um þetta segir í skýrslunni:

Seðlabankinn mælir með að tillögu starfshóps um notkun reiðufjár [sjá skýrslu] verði fylgt eftir og tilteknir aðilum verði skylt að taka við reiðufé. Auk þess ætti að skýra enn frekar og auka ábyrgð banka í að bjóða upp á viðeigandi aðgengi fyrirtækja að reiðufé. Er þetta nauðsynlegt svo viðhalda megi reiðufjárinnviðum Svíþjóðar og tryggja að áfram verði hægt að greiða með reiðufé í landinu.

Hvað ef rof verður á rafrænni greiðslumiðlun í Svíþjóð? Þá verður samt sem áður að vera hægt að greiða fyrir og taka við greiðslum fyrir helstu nauðsynjar. Í skýrslunni er hið opinbera hvatt til að verja reiðufé með lögum en auk þess að setja hámark á greiðslur með þeim greiðslumáta.

Reiðufé er nauðsynlegt svo allir eigi kost á að greiða, en auk þess svo mögulegt verði að greiða ef áföll eða stríð bresta á. Reiðufé er þó notkað í glæpastarfsemi. Því þarf að vega saman áherslu á að vinna gegn efnahagsglæpum og þörfinni á greiðslumáta sem aðgengilegur er öllum. Því ættu sænska þingið og ríkisstjórnin að huga að því að skilgreina efri mörk í greiðslum með reiðufé svo vinna megi gegn peningaþvætti og glæpastarfsemi, líkt og önnur Evrópusambandslönd hafa gert.

Seðlabankinn mun sjálfur ríða á vaðið og tryggja að komið verði upp dreifingarstöðum fyrir reiðufé víða um landið. Í stað einnar staðsetningar fyrir skömmu og þriggja í dag verður frá ársbyrjun hægt að nálgast peninga hjá bankanum á fimm stöðum. Á þetta að auðvelda bönkum og fyrirtækjum að sýsla með peninga.


Hvað með Ísland?


Nokkuð hefur verið rætt um reiðufé að undanförnu hér á landi, sem og þá skoðun Seðlabanka Íslands að koma þurfi upp nýrri greiðsluleið. Seðlabankastjóri tjáði sig um þau mál í viðtali við Ríkisútvarpið í febrúar, í kjölfar útgáfu skýrslu bankans um kostnað við smágreiðslumiðlun. Þar segist hann vilja „...tryggja aðgengi fólks að reiðufé. Í rafmagnsleysi og netsambandsleysi við útlönd munu hraðbankar ekki virka en mögulega verður hægt að taka út reiðufé í útibúum viðskiptabankanna.“ Ekki sé útilokað að bankinn beiti sér með einhverjum hætti gegn fækkun þeirra staða sem taka við reiðufé hér á landi.


Í allri þessari umræðu má þó ekki gleyma einu mikilvægasta hlutverki reiðufjár, sem eru þau heilbrigðu áhrif sem notkun þess hefur á heimilisfjármálin. Yfirsýn yfir útgjöld verður einfaldari, óþarfa neysla getur minnkað, auðveldara er að kenna börnum á fjármál með notkun þess og ætla mætti að líkur á greiðsludreifingu og töku neyslulána minnki.


bottom of page