Þetta er sem betur fer farið að stefna í rétta átt. Verðbólga hefur hjaðnað umfram spár að undanförnu og þegar þetta er skrifað hafa stýrivextir verið lækkaðir um 0,75 prósentur. En hvað ætlum við að gera við þessar vaxtalækkanir?
Á leiðinni upp
Þegar vextir hækkuðu þurftum við að laga heimilisfjármálin að breyttum forsendum. Mörg heimili byggja útgjöld sín á því svigrúmi sem kemur í ljós þegar nauðsynlegir reikningar hafa verið greiddir. Útfrá því svigrúmi er metið hvað getur verið í matinn, í hvaða ferðalög skal fara og á hvaða bíl skal ekið, svo dæmi séu tekin. Á leiðinni upp vaxtastigann (svo ekki sé talað um áhrif verðbólgunnar) þurfti því að laga fjármálin að síminnkandi svigrúmi. Sumir höfðu vissulega tryggt sér tímabundinn frið með því að festa óverðtryggða vexti eða taka verðtryggð lán, en ég reikna ekki með að mörg heimili hafi að fullu geta sleppt því að gjóa í það minnsta öðru auganu að heimilisbókhaldinu.
Þetta var víða mjög erfitt og ýmsar fórnir þurfti að færa, en nú virðist dæmið vera að snúa við og þá þykir mér mikilvægt að við spyrjum okkur: „Hvað er skynsamlegt að gera við vaxtalækkunina?“
3 dæmi
Ekki láta þetta bara koma í ljós þegar það að kemur. Við gætum litið á vaxtalækkanir sem ígildi launahækkunar og því bjóða þær okkur frábært tækifæri til að nálgast fjármálin okkar með skynsamlegum hætti og meta hvað hentar okkar aðstæðum best. Lítum á þrjár mögulegar útfærslur.
1) Höldum greiðslum óbreyttum
Nánast öll umræða um íbúðalán hefur að undanförnu snúist um að létta greiðslubyrðina.
„Eru vextirnir háir? Svona lækkar þú greiðslubyrðina“
„Seðlabankinn lækkar stýrivexti: Svona lækkar greiðslubyrðin“
„Ertu á leið í fæðingarorlof? Svona lækkar þú greiðslubyrðina“
En hvað ef við viljum ekki lækka greiðslubyrðina? Hvað ef við viljum og getum haldið áfram að greiða það sama af lánunum? Hvaða áhrif gæti það haft. Við getum átt erfitt með að átta okkur almennilega á því. Okkur finnst kannski að við séum að henda því sem virðast vera lágar fjárhæðir inn á stór lán og það geti ekki haft nema mjög takmörkuð áhrif. En þess vegna verðum við að vera dugleg að nota reiknivélar. Þær svara svo auðveldlega spurningunni sem Kristófer Helgason bar upp þegar ég svaraði spurningum hlustenda í Reykjavík síðdegis á dögunum: "Skiptir hver króna máli?"
Reiknivélina hér að neðan getur notað til að sjá hvaða áhrif vaxtabreytingar hafa á óverðtryggða lánið þitt, að því gefnu að greitt sé af því með jöfnum afborgunum.
Næst skaltu fara inn í góða íbúðalánareiknivél, svo sem þessa. Þangað slærðu inn lánið þitt og getur bætt fjárhæðinni sem sparast vegna vaxtalækkunar við greiðslur af láninu. Þarna sérðu svart á hvítu hvaða áhrif það getur haft.
Sem dæmi skulum við líta á eitt lán:
30 m.kr. óverðtryggt lán til 30 ára með jöfnum greiðslum.
Vextir lækka úr 10,5% í 9,5%
Greiðslubyrði lækkar úr 274.422 kr. á mánuði í 252.256 kr. eða um 22.166 kr.
Ef við höldum þó áfram að greiða 274.422 kr. á mánuði greiðum við lánið að fullu upp á rúmu 21 ári í stað 30 ára. Við höfum stytt lánstímann um tæpan þriðjung og það munar um 9 ár í lífi okkar. Auðvitað er í svona einföldum dæmum gert ráð fyrir óbreyttri stöðu út líftíma lánsins, sem ólíklegt er að verði, en áhrif þessarar aðgerðar eru þó ljós.
2) Greiðum niður önnur lán
Þegar herðir að, lán verða dýrara og fjármál heimilisins tæpari er ekki útilokað að nýjar skuldir bætist við. Bílalán, yfirdrættir, greiðsludreifingar greiðslukorta, smálán, raðgreiðslur og önnur skammtímalán eru rándýr og því ættum við að forðast þau eins og heitan eldinn.
Ef við höfum safnað slíkum lánum gæti verið enn skynsamlegra að nýta minnkandi greiðslubyrði til að ryðja þeim úr vegi. Við getum til dæmis losað okkur við þau hvert á fætur öðru með snjóboltaaðferðinni, en hér getur þú nálgast reiknivél sem hjálpar þér við hana.
Það er erfitt að reka heimili, vinna á íbúðalánum og safna varasjóði ef neyslulán fá að ráðast inn á heimilið okkar mánaðarlega. Það verður mikill léttir að vera laus við þau.
3) Fjárfestum
En hvað með að leggja þessa fjármuni bara fyrir? Getum við ekki fengið meiri vexti ef við fjárfestum skynsamlega?
Jú, hugsanlega, en við megum ekki gleyma áhættuþættinum. Til að geta freistað þess að ná betri ávöxtun en sem nemur kostnaði við íbúðalán, hvað þá neyslulán, þarf væntanlega að fjárfesta að mestu leyti á hlutabréfamarkaði, sem bæði krefst langs tíma, mikillar þolinmæði og áhættuþols. Þegar við berum slíkar fjárfestingar saman við niðurgreiðslu lána getum við ekki bara borið saman vexti og kostnað heldur þurfum við að meta það verðmæti sem felst í að losa sig við skuldir. Það sem greitt hefur verið niður af láni getur aldrei borið vexti eða hækkað í verðbólgu. Það getum við kallað 100% öruggt og 100% öryggi er sjaldan í boði við fjárfestingar.
Ég vil þó alls ekki fæla fólk frá því að fjárfesta samhliða niðurgreiðslu lána. Það er hollt og gott að spara og byggja upp sjóði. Það gerum við meðal annars með greiðslu í viðbótarlífeyrissparnað og aðra séreign sem og þegar sparað er fyrir fjárfestingum og útjöldum sem framundan eru. Þá veljum við þann ávöxtunarkost sem hentar best hverri og einni fjárfestingu.
Mikilvægasti sparnaðurinn er þó varasjóðurinn. Að sitja á lausafé veitir okkur aukið öryggi og hjálpar okkur við að takast á við sveiflur í heimilisrekstrinum og ófyrirséð útgjöld. Á meðan við vinnum á neyslulánum getur neyðarsjóðurinn ekki verið stór en markmiðið ætti að vera að hann dugi fyrir áföllum svo sem atvinnumissi í nokkra mánuði.
En af hverju má ég ekki bara eyða þessu?
Ekki ætla ég að standa í vegi fyrir því, en nú hefur þú lesið þessa grein og í það minnsta hugleitt hina kostina. Ef niðurstaðan er samt sem áður sú að vaxtalækkunin nýtist best í aukna einkaneyslu eru væntanlega málefnalegar ástæður fyrir því.
...en til að vera viss er kannski ekki úr vegi að kíkja einu sinni enn, bara í smástund, í reiknivélarnar.