top of page
Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Hvað kostar að leigja út íbúðina sína?

Það kostar heilmikið að sækja sér tekjur og eru leigutekjur þar ekki undanskildar. Kostnaðurinn fer þó eftir því hvers eðlis leigan er og aðstæðum leigusala.


Skattar

Talsverður greinarmunur er gerður á því hvort um hefðbundna húsaleigu sé að ræða eða heimagistingu, svo sem með Airbnb.


Séu eignir í hefðbundinni útleigu (skv. húsaleigulögum) ekki fleiri en tvær er greiddur 11% fjármagnstekjuskattur af leigutekjum (22% skattur - 50% frítekjumark).


Af heimagistingu er þó greiddur fullur 22% fjármagnstekjuskattur. Athugið að ekki er heimilt að leigja út með þeim hætti lengur en 90 daga á ári eða fá fyrir það 2 milljónir króna í tekjur.



Ellilífeyrir almannatrygginga

Ekkert frítekjumark er vegna leigutekna þegar fólki berast greiðslur úr ríkissjóði vegna almannatrygginga í gegnum Tryggingastofnun. Skerðingar á greiðslum eru þær sömu og vegna annarra tekna sem skerða, eða 56,9% brúttó þeim sem búa einir og 45% hjá öðrum. Nettó nema skerðingar hjá fólki í sambúð nær 30% (þegar leiðrétt er fyrir þeim skatti sem greiddur hefði verið af greiðslunum) og má því líta svo á og taka sem dæmi að leigi hjón út íbúðina sína í skammtímaleigu, til dæmis á meðan þau bregða sér úr landi, skili aðeins um 48% leigutekna sér í vasa þeirra, eftir skatta og skerðingar. Þó má taka fram að greiðslum almannatrygginga er ætlað að veita fé skattgreiðenda til þeirra sem minni tekjur hafa og ef fólk getur sótt sér fé með útleigu gerir kerfið ráð fyrir að ekki sé þörf á jafn miklum millifærslum frá skattgreiðendum.


Hvað ef leigjandinn borgar ekki?

Leigusali ber nokkra áhættu af útleigunni, svo sem vegna viðhalds og vali á hentugum leigjanda. Talsverður kostnaður getur fylgt því standi leigjandi ekki skil á greiðslum og neiti jafnvel að yfirgefa eignina.

Sigurður Orri Hafþórsson, lögfræðingur hjá Húseigendafélaginu, skrifaði um málefnið mjög skýra og góða grein fyrir nokkru sem gott er að kynna sér.



Auk þessa kostnaðar ber leigusali skyldur sem gott er að kynna sér, getur borið fjármagnskostnað af eigninni og annan rekstrarkostnað. Þetta er gott að þekkja áður en húsnæði er leigt út og skal allt taka með í reikninginn þegar áætla á fýsileika útleigu.

bottom of page