Okkur er því miður ekki frjálst að ráðstafa eignum okkur að vild. Ríkið fær 10% skatt af fyrirframgreiddum arfi og fullan tekjuskatt þegar um gjafir er að ræða sem ekki teljast tækifærisgjafir. Við þurfum því að vanda okkur og fara varlega þegar fjármunir eru færðir öðrum.
Aðstoð við íbúðakaup
Töluvert er um að foreldrar aðstoði börn sín við að koma sér þaki yfir höfuðið. Í skýrslu Sigurðar Páls Ólafssonar, sem stýrir skrifstofu efnahagsmála í fjármálaráðuneytinu 7. október 2024, er áætlað að þrefalt fleiri fyrstu kaupendur fái nú aðstoð frá ættingjum en árið 2010.
Slík aðstoð er oft útfærð sem lán til barnanna og stundum kaupa foreldrar hlut í íbúðinni. Fyrirframgreiddur arfur getur loks verið hentug leið til að aðstoða börn. En af hverju megum við ekki bara gefa börnunum okkar peninga sem við höfum þegar greitt skatta af? Eru þetta ekki okkar peningar? Nei, eins og áður segir eru okkur yfirleitt ekki frjálst að ráðstafa okkar eignum nema millifærðar séu jafnvel umtalsverðar fjárhæðir í ríkissjóð.
Skatturinn orðar skilgreiningu sína á skattskyldum gjöfum þó ekki með mjög skýrum hætti:
Gjafir eru skattskyldar tekjur og bera tekjuskatt og útsvar eftir almennum reglum, þó þannig að undanþegnar eru tækifærisgjafir ef verðmæti þeirra er ekki meira en gerist almennt um slíkar gjafir.
Þetta er vissulega ekki auðskilið en þarna er með öðrum orðum verið að vísa fólki frekar í farveg fyrirframgreidds arfs. Skárra er að greiða 10% erfðafjárskatt en hátt í 50% tekjuskatt og útsvar.
Hverjum má færa fyrirframgreiddan arf?
Við megum gefa lögerfingjum okkar fyrirframgreiddan arf, sem og þeim sem taka arf samkvæmt erfðaskrá (bréferfingjum). Nánari upplýsingar um erfingja
Við getum ráðstafað hluta okkar eigna eða þeim öllum með fyrirframgreiddum arfi en alltaf skal greiddur 10% erfðafjárskattur og eignamörk sem gilda við skipti á dánarbúi eiga ekki við í tilfelli fyrirframgreidds arfs.
Hvernig fer þetta fram?
Nú má nálgast afar aðgengilegar og skýrar upplýsingar um ferlið á vefnum island.is. Gott er að kynna sér upplýsingasíðuna vel og vandlega áður en þessi leið er farin. Þar að auki bjóða ýmsir lögmenn upp á þjónustu við gerð erfðaskrár og ráðstöfum eigna.