top of page

Ættum við að hætta að segja „verðbólgan er“?

Writer's picture: Björn Berg GunnarssonBjörn Berg Gunnarsson

Lítið inn á næstu kaffistofu eða Facebook hóp og hlustið á hvernig talað er um verðbólgu. Er ekki merkilega oft látið eins og verðbólga sé ástand, svipað hitastigi? „Verðbólgan er 5,8%“ er sagt og jafnvel bætt við að vextir séu x%.


Verðbólgutalan, sem birt er og rætt er um, segir okkur hvað verðlag hefur hækkað mikið undanfarna 12 mánuði. En vegna þess að talað er um hana í nútíð misskilja margir um hvað er verið að ræða.


Þetta er dæmi um ákveðið vandamál sem mér hefur verið hugleikið að undanförnu. Fjármálalæsi er augljóslega mjög ábótavant, sem m.a. sést á hversu algengur samanburður er á verðbólgu í fortíð og vöxtum í nútíð og framtíð.


Annað hvort þurfum við að bæta fjármálalæsi okkar (gerum það sjálf, ekki bíða í 100 ár eftir að hið opinbera bjargi málunum) eða að hætta að tala um að verðbólgan sé ákveðin tala.


Hvernig hljómar að við tölum um að „verðbólgan hafi verið“ 5,8% á meðan við vinnum að því að bæta hér almennt fjármálalæsi og breytum svo aftur yfir í „verðbólgan er“ þegar við erum komin á betri stað?


Með bættu fjármálalæsi gætum við jafnvel haft enn betri stjórn á verðbólgunni og loksins leyft okkur að segja „verðbólgan er.... bara mátuleg“.

bottom of page