
Hvert er viðfangsefni okkar þegar kemur að starfslokum og töku lífeyris? Vissulega komumst við ekki hjá því að taka upp vasareikninn en lífeyrismál eru þó ekki alfarið flókið stærðfræðilegt bestunardæmi með einni réttri niðurstöðu.
Það er ekki hægt að alhæfa um hvað allir eigi að gera. Þvert á móti er nauðsynlegt að líta á lífeyrismál sem persónubundin og leita leiða til að stilla þeim upp með hætti sem hentar hverjum og einum. Að mínu mati snúast lífeyrismál ekki aðeins um að finna rétta tímann til að sækja ellilífeyri eða leita leiða til að sækja sem mesta fjármuni úr almannatryggingum. Við ættum ekki síst að hafa það að markmiði að geta greitt þá reikninga sem við viljum greiða og búið á sama tíma við fjárhagslegt öryggi.
Verðmæti hverrar krónu
Þetta fer ágætlega saman við það sem ég heyri merkilega oft frá fólki sem nálgast lífeyrisaldurinn. Það talar um að njóta lífsins á meðan það hefur heilsu til.
Með það að markmiði lítum við ekki einungis á þær krónur sem við eigum heldur verðmæti hverrar krónu. Þannig gætum við metið verðmæti lausafjár nokkuð meira en eigin fjár bundnu í eignum, þar sem lausafé gæti gefið okkur svigrúm hvað starfslok varðar, aðstoð við börn, ferðalög og annað sem getur glatt okkur. Verðmæti hverrar krónu gæti sömuleiðis jafnvel aukist eftir því sem við erum yngri þegar við njótum hennar. Kannski gætu 100.000 kr. nýst okkur betur og gefið okkur meira þegar við erum 65 ára en 150.000 kr. gætu við 85 ára aldur.
Gengur dæmið upp?
En það er ekki nóg að setja sér markmið. Hvernig komumst við að því hvort markmiðin séu raunhæf og dæmið komi til með að ganga upp?
Þá þurfum við að draga fram vasareikninn og vanda okkur við að teikna upp einfalt heimilisbókhald á lífeyrisaldri. Slík vinna hefst á útgjaldahliðinni. Hvað er átt við með að njóta á meðan við höfum heilsu til? Til hve langs tíma er litið og hvað áætlum við að hver mánuður komi til með að kosta á meðan við erum að njóta?
Þegar við höfum komið þeim tölum niður á blað tekur næsta verkefni við. Þá freistum við þess að sækja fjármagn, mögulega úr hinum ýmsu áttum, sem dugar til að tryggja að heimild verði á kortinu. Þegar við tökum saman eignir okkar, lífeyrisréttindi, séreignarsparnað og annað fé lítum við á aðgengi okkar að þeim fjármunum. Hve mikið getum við sótt á hverjum tíma og hvernig hentar okkur að sækja þær fjárhæðir að teknu tilliti til skatta og almannatrygginga en fyrst og fremst útgjalda okkar á sama tíma?

Sé þessu meginmarkmiði lífeyrismálanna náð leyfi ég mér að líta svo á að fólk sé á grænu ljósi hvað sína lífeyristöku varðar. Sú æfing að teikna upp einfalt bókhald með þeim hætti sem ég nefni getur vissulega verið tímafrek og okkur getur þótt erfitt að nálgast nægjanlega skýrar upplýsingar um lífeyrismál okkar. En sú vinna er þó tímans virði og rúmlega það. Hún getur auk þess aðstoðað okkur við að sjá áhrif þess að fylgja ólíkum sviðsmyndum. Dæmi um það gætu verið áhrif þess að vinna lengur eða skemur, að minnka við sig í húsnæði, greiða niður skuldir og ganga hraðar eða hægar á peningalegar eignir.
Ef við nálgumst lífeyrismálin okkar með þessum hætti getum við betur sniðið fjárhag okkar að því sem okkur sjálfum hentar og við viljum. Við gerum sem mest úr hverri krónu og getum því vonandi leyft okkur að njóta og njóta ríkulega á meðan við höfum heilsu til.
Greinin birtist fyrst í Félagstíðindum félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni 19. mars 2025
Nánari upplýsingar um lífeyrismál og starfslok má nálgast með því að smella hér eða á myndina að neðan.